Trékyllisheiðarhlaupið fór fram í fimmta sinn laugardaginn 16. ágúst sl. í gulri viðvörun vegna suðvestan hvassviðris. Vindurinn setti eðlilega strik í reikninginn, enda bálhvasst í fangið lengst af. Engu að síðu náðust góðir tímar og brautarmet voru slegin í stysta hlaupinu, þar sem hlaupið er um hlíðina fyrir ofan Bólstdað.
Samkvæmt veðurspá var ljóst að mesta hvassviðrið yrði í brúnunum á nyrsta hluta leiðarinnar. Því var ákveðið að breyta fyrri hluta lengstu hlaupaleiðarinnar (Trékyllisheiðin Ultra 48 km) til að stytta tímann sem hlauparar myndu þurfa að glíma við mótvind upp á allt að 15-20 m/sek. Hlaupið var því ræst í Norðurfirði og hlaupið yfir Naustvíkurskörð til Djúpavíkur. Þaðan var svo fylgt sömu leið og í næstlengsta hlaupinu (Trékyllisheiðin Midi 26 km).
Unga fólkið átti sviðið í stysta hlaupinu (Trékyllisheiðin Junior 3,7 km), en þar voru slegin brautarmet bæði í karla- og kvennaflokki. Haraldur Vignir Ingólfsson (f. 2014) kom fyrstur í mark af strákunum á 22:23 mín, sem er meira en 2 mín bæting á fyrra brautarmeti. Hjá stelpunum stóð Kolfinna Vísa Aspar Eiríksdóttir (f. 2015) uppi sem siguvegari á 24:20 mín og bætti þar með brautarmetið um meira en 1 mín og bætti sig um heilar 11 mín. frá því í fyrra.
Felix Starker vann lengsta hlaupið (48 km) þriðja árið í röð. Í þetta skiptið hljóp hann spölinn frá Norðurfirði að skíðaskálanum í Selárdal á 4:25:44 klst. og var rúmum klukkutíma á undan næsta manni. Brautarmet Felix frá því fyrra en 4:06:21 klst, en þessir tímar eru ekki sambærilegir þar sem hlaupaleiðin er ekki sú sama.
Samtals komu 82 hlauparar í mark þetta árið og hafa aldrei verið fleiri þrátt fyrir vindinn. Skíðafélag Strandamanna þakkar öllum þátttakendum, starfsfólki og styrktaraðilum fyrir ómetanlegan þátt þeirra í framkvæmd hlaupsins.
Úrslit hlaupsins eru komin inn á úrslitasíðuna.
Á myndinni sem fylgir má sjá verðlaunahafana í Trékyllisheiðin Midi (26 km) í kvennaflokki. F.v. Súsanna Ástvaldsóttir (2. sæti), Sara Kristjánsdóttir (1. sæti) og Elva Brá Bjarkardóttir (3. sæti).

