Trékyllisheiðin Midi 26 km

Næstlengsta hlaupið (26 km) hefst kl. 12 á hádegi við Hótel Djúpavík innst í Reykjarfirði. Fyrstu metrana er hlaupið upp með gömlu síldarverksmiðjunni, en síðan út af veginum og áleiðis inn dalinn sem opnast þar á bak við. Hlaupið er til suðvesturs eftir grófum vegarslóða utan í Kjósarhjöllum drjúgan spöl upp með Kjósará. Eftir u.þ.b. 3,5 km er klöngrast vestur yfir ána og síðan áfram upp með henni að norðvestanverðu, áleiðis upp bratta malarhjalla, og stefnt til suðvesturs og suðurs inn á Trékyllisheiði. Eftir u.þ.b. 7,5 km hlaup eftir grófum slóðum er komið inn á hlaupaleiðina norðan úr Trékyllisvík, (sjá leiðarlýsingu lengsta hlaupsins). Eftir það liggja leiðirnar saman. Drykkjarstöð er við Goðdalsá (rúmir 11 km) og önnur við vegamót inn af Bjarnarfjarðarhálsi (rúmir 17 km). Hlaupið endar svo við skíðaskálann í Selárdal. Þangað þurfa allir að vera komnir kl.17:40. Tímamörk í hlaupinu miðast nefnilega við tímann sem það tók Þórberg Þórðarson að skottast þarna yfir 30. september 1912 í framhjágöngunni miklu.

Kort af leiðinni má finna á https://tracedetrail.fr/en/trace/trace/203738.  

Hlaupið er viðurkennt af ITRA (International Trail Running Association) og gefur 1 ITRA-punkt og 4 fjallapunkta. Hlaupið er jafnframt hluti af Landskeppni ITRA á Íslandi (ITRA National League).

Hlaupið er UTMB Index Race í 20 km flokknum og gefur því UTMB-stig sem veita ákveðinn forgang til þátttöku í UTMB hlaupaseríunni.

Á leið inn með Kjósarhjöllum. Myndin var tekin í hlaupaferð sumarið 2019.