Um

Trékyllisheiðin er utanvegahlaup sem fer fram á Ströndum í annað sinn laugardaginn 13. ágúst 2022. Tvær vegalengdir eru í boði, Trékyllisheiðin Ultra 48 km (um 1.200 m hækkun) og Trékyllisheiðin Mini 16,5 km (um 250 m hækkun). Lengra hlaupið hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík og það styttra á Bjarnarfjarðarhálsi milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar. Skíðafélag Strandamanna stendur að hlaupinu, en Strandagöngur félagsins eru vinsæll hluti af Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands. Bækistöðvar félagsins eru í nýlegum skíðaskála á Brandsholti í Selárdal inn af botni Steingrímsfjarðar, u.þ.b. 16 km norðvestan við Hólmavík. Sætaferðir verða frá skíðaskálanum að rásmörkum beggja hlaupanna og bæði hlaupin enda við skíðaskálann.

Bæði hlaupin eru viðurkennd af ITRA (International Trail Running Association). Lengra hlaupið gefur 2 ITRA-punkta. Lengra hlaupið hefur einnig verið samþykkt sem UTMB Qualifying Race í 50 km flokki.

Trékyllisheiði er fjallvegur á milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur á Ströndum. Leiðin yfir heiðina var greiðasta leiðin á milli þessara byggðarlaga þangað til vegur var lagður meðfram sjónum norðan Bjarnarfjarðar. Heiðarleiðin er mun styttri en bílvegurinn, en liggur víðast í um 400 m hæð og er afar hrjóstrug, gróðursnauð og illviðrasöm á vetrum. Heiðin verður því sjaldan fyrir valinu sem ferðaleið ef aðrar hlýlegri standa til boða. Jeppaslóði liggur yfir heiðina, en hann er mjög seinfarinn, nema helst þegar harðfenni er yfir.

Á bls. 139 í Fjallvegahlaupabók Stefáns Gíslasonar (Salka 2017) er að finna eftirfarandi lýsingu:
Trékyllisheiði hefur hvorki verið mönnum blíð né auðveld yfirferðar síðustu aldirnar. Til eru margar hrakfarasögur af heiðinni og Jakob Thorarensen (1886-1972) skáld frá Gjögri komst svo að orði að þar væri „jafn þurlegt og í dómssal, eins þögult og í gröf“. … Þórbergur Þórðarson var einn þeirra sem átti leið um Trékyllisheiði á sínum tíma. Hann gekk þarna yfir mánudaginn 30. september 1912 í framhjágöngunni miklu, lagði á heiðina frá Kjós kl. 10 árdegis og var kominn að Bólstað kl. 15:40. Þar drakk hann kaffi.

Nánari upplýsingar