Um

Trékyllisheiðin er utanvegahlaup sem fer fram á Ströndum í þriðja sinn laugardaginn 12. ágúst 2023. Nú bætist þriðja vegalengdin við þær tvær sem áður hafa verið í boði – og auk þess verður efnt til sérstaks ungmennahlaups í Selárdal. Skíðafélag Strandamanna stendur að hlaupinu, en Strandagöngur félagsins eru vinsæll hluti af Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands. Bækistöðvar félagsins eru í nýlegum skíðaskála á Brandsholti í Selárdal inn af botni Steingrímsfjarðar, u.þ.b. 16 km norðan við Hólmavík. Þar enda öll hlaupin.

Valkostirnir verða sem sagt fjórir að þessu sinni:

  1. Trékyllisheiðin Ultra 48 km (úr Trékyllisvík, um 1.150 m hækkun)
  2. Trékyllisheiðin Midi 26 km (frá Djúpavík, um 950 m hækkun)
  3. Trékyllisheiðin Mini 16,5 km (af Bjarnarfjarðarhálsi, um 300 m hækkun)
  4. Trékyllisheiðin Junior 3,7 km (frá Bólstað, um 70 m hækkun)

Öll hlaupin eru viðurkennd af ITRA (Alþjóða utanvegahlaupasambandinu) og eru hluti af Landskeppni ITRA á Íslandi (ITRA National League).

Tímasetning
Laugardagur 12. ágúst 2023

Staðsetning
Lengsta hlaupið hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík, næstlengsta hlaupið við Hótel Djúpavík í Reykjarfirði og það þriðja á Bjarnarfjarðarhálsi milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar. Ungmennahlaupið hefst svo við eyðibýlið Bólstað í Selárdal. Sætaferðir verða frá skíðaskálanum að rásmörkum hlaupanna og sem fyrr segir enda öll hlaupin við skíðaskálann.

Trékyllisheiðin
Trékyllisheiði er fjallvegur á milli Trékyllisvíkur og Steingrímsfjarðar. Leiðin yfir heiðina var  greiðasta leiðin á milli þessara byggðarlaga áður en vegur var lagður meðfram sjónum norðan Bjarnarfjarðar. Heiðarleiðin er mun styttri en bílvegurinn, en liggur víðast í um 400 m hæð og er afar hrjóstrug, gróðursnauð og illviðrasöm á vetrum. Heiðin verður því sjaldan fyrir valinu sem ferðaleið. Jeppaslóði liggur yfir heiðina, en hann er seinfarinn, nema helst þegar harðfenni er yfir.

Á bls. 139 í Fjallvegahlaupabók Stefáns Gíslasonar (Salka 2017) er að finna eftirfarandi lýsingu:
Trékyllisheiði hefur hvorki verið mönnum blíð né auðveld yfirferðar síðustu aldirnar. Til eru margar hrakfarasögur af heiðinni og Jakob Thorarensen (1886-1972) skáld frá Gjögri komst svo að orði að þar væri „jafn þurlegt og í dómssal, eins þögult og í gröf“. … Þórbergur Þórðarson var einn þeirra sem átti leið um Trékyllisheiði á sínum tíma. Hann gekk þarna yfir mánudaginn 30. september 1912 í framhjágöngunni miklu, lagði á heiðina frá Kjós kl. 10 árdegis og var kominn að Bólstað kl. 15:40. Þar drakk hann kaffi.

Nánari upplýsingar

Horft út Reykjarfjörð af hlaupaleiðinni. Bærinn í Reykjarfirði sést á miðri mynd, en Reykjarfjarðarkambur yst til hægri.