Trékyllisheiðin Ultra 48 km

Lengsta hlaupið (48 km) hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík. Þaðan er hlaupið eftir malarvegi (Þjóðvegi 643, Strandavegi) til norðvesturs, um 3 km leið. Þegar komið er fram hjá bænum Melum er beygt til vinstri inn á jeppaveg (Ófeigsfjarðarveg) sem liggur yfir Eyrarháls áleiðis í Ingólfsfjörð. Um það bil sem komið er upp á háhálsinn (um 2,3 km frá Strandavegi, um 200 m hækkun) er beygt til vinstri inn á torfæran slóða sem liggur til að byrja með í suður og suðvestur inn á Trékyllisheiði. Hlaupið er fyrir norðan fjallið Glissu og á þeim kafla fer leiðin hæst, eða í rúmlega 500 m.y.s. Eftir 13,2 km hlaup er komið á hæð norðvestan við Glissu og þar er fyrsta drykkjarstöðin á leiðinni.

Eftir u.þ.b. 18 km er tekin vinstri beygja vestan við Reykjarfjarðarvatn og hlaupið suður með Búrfelli austanverðu nálægt brúnum inn af Reykjarfirði, m.a. yfir vatnslitlar ár sem þar eru (Mjóadalsá, Breiðadalsá og Óveiðisá). Við Búrfellsvatn sunnan við Búrfell er drykkjarstöð nr. 2. Þangað eru um 25,6 km frá rásmarkinu. Eftir þetta liggur leiðin áfram suður hina eiginlegu Trékyllisheiði, þar sem jeppaslóðum er fylgt lengst af. Sunnantil á heiðinni, eftir u.þ.b. 34 km, liggur leiðin yfir Goðdalsá sem getur verið vatnsmikil í leysingum og í vætutíð. Vakt verður við ána til að tryggja að allir komist klakklaust yfir. Þar er drykkjarstöð nr. 3. Við 40 km markið liggur leiðin fram hjá vegamótum. Þangað liggur jeppaslóði af Bjarnarfjarðarhálsi, þaðan sem keppendur í 16,5 km hlaupinu koma inn á aðalleiðina. Þar er fjórða drykkjarstöðin. Eftir það hallar vötnum mjög til Steingrímsfjarðar. Komið er niður í Selárdal skammt frá eyðibýlinu Bólstað, vaðið yfir Selá (með aðstoð eftir þörfum) og endaspretturinn tekinn inn dalinn að skíðaskálunum á Brandsholti, þar sem hlaupið endar.

Kort af leiðinni má finna á https://tracedetrail.fr/en/trace/trace/167645.  

Hlaupið er viðurkennt af ITRA (International Trail Running Association) og gefur 2 ITRA-punkta og 2 fjallapunkta. Hlaupið er jafnframt hluti af Landskeppni ITRA á Íslandi (ITRA National League).

Hlaupið er UTMB Index Race í 50 km flokknum og gefur því UTMB-stig sem veita ákveðinn forgang til þátttöku í UTMB hlaupaseríunni.

Lilli Ofstad kemur fyrst kvenna í mark í Trékyllisheiðin Ultra 2022 á nýju brautarmeti, 4:58:53 klst. (Ljósm. Viktoría Rán Ólafsdóttir).
Á uppleið á Eyrarhálsi sumarið 2021. (Ljósm. Stefán Gíslason).