Myndir Guðbjargar Hörpu Ingimundardóttur frá Trékyllisheiðarhlaupinu 17. ágúst sl. eru komnar í sérstaka möppu á Facebooksíðu hlaupsins. Myndbirtingin dróst af tæknilegum ástæðum, en nú er þetta allt komið á sinn stað. Flest þeirra sem tóku þátt í hlaupinu geta fundið mynd af sér í möppunni, margar býsna góðar þrátt fyrir óhagstæð veðurskilyrði til myndatöku.
Og áður en undirbúningurinn fyrir næsta Trékyllisheiðarhlaup 16. ágúst 2025 tekur alfarið yfir vill Skíðafélag Strandamanna, sem stendur fyrir hlaupinu, þakka öllum þeim sem gerðu hlaupið í sumar að þeim skemmtilega viðburði sem það sannarlega varð. Sérstakar þakkir fá allir þátttakendur og allt starfsliðið, þ.m.t. björgunarsveitirnar sem stóðu vaktina á drykkjarstöðvunum. Bestu þakkir fá líka allir styrktaraðilar. Í því sambandi er ástæða til að nefna sérstaklega að í ár fékk Trékyllisheiðarhlaupið sérstakan styrk frá Sterkum Ströndum, en það er byggðaþróunarverkefni í Strandabyggð sem rekið er undir merkjum „Brothættra byggða“. Styrkurinn kom að góðum notum og Skíðafélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn.
