Trékyllisheiðarhlaupið fór fram í fjórða sinn í gær, laugardaginn 17. ágúst 2024. Besta afrek dagsins – og jafnframt í sögu hlaupsins hingað til – var vafalítið brautarmet Felix Starker í Trékyllisheiðin Ultra (48 km), en hann kom langfyrstur í mark á 4:06:21 klst. Fyrra metið setti hann sjálfur í fyrra, 4:14:42 klst.
Samtals komu 80 hlauparar í mark í hlaupum gærdagsins og hafa aldrei verið fleiri. Veðrið var þó með leiðinlegra móti, allhvöss og köld norðanátt með súld, einkum norðantil á svæðinu. Hlauparar í lengstu vegalengdunum fengu slydduél í kaupbæti og efst á Trékyllisheiði var tekið að grána í rót.
Skíðafélag Strandamanna þakkar öllum þátttakendum, starfsfólki og styrktaraðilum fyrir ómetanlegan þátt þeirra í framkvæmd hlaupsins. Undirbúningur fyrir Trékyllisheiðarhlaupin 2025 hefst fljótlega og dagsetning verður kynnt strax og hún liggur fyrir.
Úrslit hlaupsins eru komin inn á úrslitasíðuna.
Á myndinni sem fylgir má sjá verðlaunahafana í Trékyllisheiðin Midi (26 km) í karlaflokki. F.v. Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson (2. sæti), Almar Viðarsson (1. sæti) og Hjálmar Hinz (3. sæti).

