Í dag var opnað fyrir skráningu í Trékyllisheiðarhlaupið, sem fram fer í fjórða sinn laugardaginn 17. ágúst 2024.
Í Trékyllisheiðarhlaupinu er hægt að velja um fjórar leiðir, þ.e.a.s. Trékyllisheiði Ultra (48 km), Trékyllisheiði Midi (26 km), Trékyllisheiði Mini (16,5 km) og Trékyllisheiði Junior (3,7 km). Hlaupin hefjast misnorðarlega á Ströndum og enda öll við skíðaskála Skíðafélags Strandamanna á Brandsholti í Selárdal, nokkrum kílómetrum norðan við Hólmavík. Í markinu er jafnan boðið upp á kökur og kjötsúpu – og öll gefa hlaupin ITRA-stig og eru hluti af Landskeppni ITRA 2024.
Þess má geta að Trékyllisheiðin Midi er að mestu leyti sama leið og Þórbergur Þórðarson gekk í Framhjágöngunni miklu haustið 1912 og sagt er frá í bókinni Íslenskur aðall. Hann lagði af reyndar af stað frá Kjós, en það munar ekki öllu. Þórbergur var að eigin sögn 5:40 klst. á leiðinni og eðlilega taka tímamörkin í hlaupinu mið af því. Að margra mati er Framhjágangan frægasta gönguferð íslenskra bókmennta.
Þátttökugjöldin eru þau sömu og í fyrra og þau sem skrá sig fyrir lok febrúarmánaðar fá góðan afslátt.
Allar nánari upplýsingar er að finna á https://trekyllisheidin.com og skráning fer fram á https://netskraning.is/trekyllisheidin.
Sjáumst á Ströndum í ágúst!
